Meðvirkni

Dáleiðsla – meðvirkni

30 ára kona segir sögu sína 

Að láta grímuna falla var ekki svo auðvelt en mikið var gott að losna við hana.

Stundum vissi ég ekki hvernig mér leið og oft grét ég af því ég vissi ekki hvernig mér átti að líða. Ég gat erfiðlega skilið þær tilfinnigar sem komu upp og ég óttaðist þær líka. Ég óttaðist viðbrögð annarra við hegðun minni og ég óttaðist að þegar mér leið vel að mér myndi líða illa seinna. þegar mér hafði liðið vel í nokkra daga beið ég eftir fallinu. Beið eftir niðursveiflunni og hætti að njóta augnabliksins.

Ég var dugleg að loka mig inn í skel, og ef ég var spurð hvernig ég hefði það, þá hafði ég það bara fínt og oft fékk ég að heyra að ég væri alltaf svo hress.

Ég var alin upp af foreldrum sem stjórnuðu umhverfinu.

Þegar ég svaraði dónalega fékk ég ekki lengur það sem ég átti að fá því ég svaraði vitlaust. Ég fékk oft að heyra að ég væri vonlaus, ég væri misheppnuð.

Það var oft þungt andrúmsloft heima en líka oft létt og skemmtilegt.

Þegar andrúmsloftið heima var þungt þurfti ég að passa vel hvað ég segði til að verða ekki skömmuð. Þegar andrúmsloftið var þungt þá grét mamma en sagði aldrei hvað væri að. Ég fékk bara að heyra að ekkert væri að. Ég átti mjög erfitt með að skilja afhverju mamma væri að gráta þegar ekkert var að.

Stundum var mamma mjög glöð og ég vissi ekki afhverju. Ég spurði mömmu afhverju hún væri svona glöð og hún sagði bara af því bara. Ég átti erfitt með að átta mig á afhverju mamma væri svona glöð eða sorgmædd og aldrei var neitt að, né neitt skemmtilegt.

Ég lærði á  andrúmsloftið heima. Ég lærði að vera í sama takti og andrúmsloftið heima. Ef það var þungt þá fór ég varlega og passaði að tala lítið og helst ekkert og ég var dugleg að hjálpa til, og þegar andrúmsloftið heima var létt leið mér betur, en ég þurfti þá sérstaklega að passa að skemma það ekki með því að segja eitthvað vitlaust.

Þegar ég sagði eitthvað vitlaust var mér refsað. Ég fékk ekki að koma heim með vinkonu. Ég fékk ekki að borða eftirréttinn. Ég fékk ekki að vera ég. Ég lærði að vera hlutur í umhverfinu sem skipti um liti eftir loftslagi en fljótlega lærði ég þó að vera bara svört eða hvít og þá meina ég allt eða ekkert.

Ég þurfti auðvitað að vera fullkomin og gera allt vel þó ég vissi að enginn væri fullkominn og þegar mér mistókst þá refsaði ég sjálfri mér.

Ég féll í þunglyndi, ég varð vonlaus, ég var einskis virði, ég varð ekkert.

Ég hafði þróaði með mér streitu vegna andrúmsloftsins. Ég varð stressuð. Ég var ekki nógu góð. Ég  gat ekki staðið undir væntingum og síðar þegar stressið var farið að eflast þá kom kvíðinn og svo varð hann furðulegur og kom upp einmitt þegar ég var að fara að gera eitthvað skemmtilegt.

Einn daginn áttaði ég mig á að ég væri orðin gamla umhverfið mitt.

Ég var orðin eins og foreldrar mínir þrátt fyrir að hafa aldrei liðið vel í því umhverfi og þrátt fyrir að skilja ekki pabba minn því hann var stjórnsamur og skapstór og þrátt fyrir að skilja ekki tilfinningar mömmu þegar hún var döpur eða glöð.

Ég var orðin hlutur á mínu eigin heimili 30 ára.

Í dag er ég búin að vinna í mér og á batavegi. Ég veit að margir eru í mínum sporum þó saga þeirra sé ekki eins og mín.

Fyrst af öllu var að fyrirgefa og losna við fórnarlambið, en stundum er gott að vera fórnarlamb. Síðan að losna við meðvirknina og semja við streituna og kvíðann eða semja við streituna til að losna við fórnarlambið.

Þegar allt þetta var farið hvarf þunglyndið og velgengni tók við.