Dáleiðsla – reiði, velgengni
58 ára kona segir frá
Ég er ákveðin, vel gift í góðu starfi. Ég á börn í velgengni en á erfitt með að sleppa tökum og hef óþarfa áhyggjur og alltaf stutt í reiðina.
Mér finst að allt sem ég geri þurfi ég að gera svo vel og oft eyði ég ótrúlegri orku í að koma einhverju í lag sem aðrir kæra sig ekki einu sinni um að ég geri.
Ég hef líka ímyndað mér að fólk sé að tala um mig og hugsa um mig þó það sé alls ekki rétt og þessar hugsanir koma út í reiði en þessar hugsanir hafa þó aðeins komið upp undir miklu álagi.
Síðustu árin hefur þetta verið að ágerast ásamt streitu og vanlíðan og skilað sér bæði andlega og líkamlega.
Maðurinn minn hafði farið til Hólmfríðar til að hætta að reykja og var hann mjög sáttur þannig að ég pantaði tíma fyrir mig.
Ég var ekki vön að opna mig og tala um líf mitt enda dugleg að loka á tilfinningar í gegnum árin. Líklegast var einhver harka í uppeldi mínu þó ég ætti góða foreldra. Ég þurfti alltaf að standa mig vel og svo voru allir alltaf svo uppteknir og lítið um kærleika.
Í dáleiðslu þessari staldraði ég við og skoðaði minningar og það var ótrúlegt hversu auðveldlega þær komu. Ég fór í nokkuð þægilega dáleiðslu og upplifði rosalega slökun.
Ég stökk á milli minninga og sá afhverju ég tæki hlutum svona nærri mér og afhverju ég væri svona mikill stjórnandi. Ég var alltaf að hugsa um aðra þó þeir vildu það ekki og ekki skrítið að ég væri örmagna eftir alla “vinnuna” sem ég hafði unnið síðustu árin.
Í þessari dáleiðslu fékk Hólmfríður mig til að skoða sjálfa mig, staldra við og sjá hversu mikilvægt er fyrir mig að hægja á hraðanum og hugsa betur um mig og sleppa tökum á öðrum.