Andleg heilsa

Hvernig hefur þú það?

Bara fínt!

Þetta er setning sem margir þekkja, alveg sama hvernig þeir hafa það. Andleg heilsa er persónulega heilsan.  Heilsan sem er best falin eða mest opinberuð. Hún er ekki kvef en kvef til lengri tíma gæti hinsvegar haft áhrif á andlega heilsu. Líkamleg veikindi geta líka haft áhrif á andlega heilsu. Fólk sem við umgöngumst í vinnunni, skóla eða heima geta líka haft áhrif á andlega heilsu. Neikvætt fólk skapar neikvætt andrúmsloft og ef við þurfum að umgangast fólk sem lifir í neikvæðni erum við á góðri leið þangað líka. Lærðu að setja mörk! Berðu virðingu fyrir þér og aðrir munu gera það líka. Ef þú segir já þegar þú vilt segja nei ertu að vaða yfir þína eigin andlegu heilsu. Þetta já mun nefnilega skapa kvíða í þér því einhverjum tókst að láta þig gera eitthvað sem þú vilt ekki gera. Sumir lifa fyrir það að stjórna öðrum eða ráðskast með fólk, reyna að skemma fyrir vegna öfundar. Ef þú tekur því sem samþykki ertu um leið að skemma þína andlegu heilsu. Þú skapar streitu, óöryggi og áhyggjur og byrjar að sofa illa því þú ert að hugsa um aðstæður sem einhver setti þig í. það verður alltaf til fólk sem ögrar og vill ekki vel en að þú takir þátt í því er óþarfi.  Þú ert farinn að hugsa um það sem þú vilt ekki í stað þess að hugsa um það sem þú vilt og hversu vel muni ganga.

Mundu bara að þér gengur vel í dag og með breyttu hugarfari mun þér ganga betur.

Þú veist hvað þú vilt og þú munt ná markmiðum þínum.

Gangi þér vel!