Um mig

Hólmfríður Jóhannesdóttir NLP dáleiðari, söngkona & söngkennari.
Hef töluverða reynslu af dáleiðslu, kennslu og námskeiðahaldi.

Sérsvið mitt er aukið sjálfstraust dáleiðsla,
streita, kvíði, tilfinningar og fíkn.

Einnig vinn ég með þeim sem hafa þróað með sér svefnleysi, vöðvabólgu eða vefjagigt vegna of mikils álags eða slyss.
Sumir þola endalaust álag á meðan aðrir þola minna.
Þessi þáttur liggur oft í erfðum en ekki hversu dugleg við erum.
Hægt er að þróa með sér sjálfsónæmi vegna álags og streitu.
Ef þú getur ekki losað þig við sjúkdóm lærðu þá að halda honum niðri og lifa með honum á jákvæðan hátt.
Sumir vilja hætta að reykja og ná stjórn.
Aðrir vilja ná tökum á mataræði – matarfíkn.
Sumir eru alltaf í kappi við tímann vegna álags og láta allt ganga fyrir nema sjálfan sig þar til líkaminn gefur viðvörunarmerki. Dæmigert streitueinkenni.
Ég er einnig heilari, höfuðbeina og spjaldhryggjarmeðferðaraðili og hef lokið heilbrigðisfögunum líffæra og lífeðlisfræði, sjúkdómafræði og siðfræði.
Ég stofnaði Andlega Setrið haustið 2012 á Suðurlandsbraut 32.
Árið 2010 flutti ég heim til Íslands eftir dvöl erlendis þar sem ég starfaði sem óperusöngkona í Austurríki og í Þýskalandi. Við heimkomu fór ég í orkunám og hóf að iðka andleg fræði og hamingjusama sálfræði ásamt því að vera starfandi söngkona og söngkennari.
Vorið 2011 útskrifaðist ég með Diploma í meðferðardáleiðslu frá The Hypnosis Centre í Skotlandi og byrjaði að vinna við dáleiðslu eftir útskrift. Ég hélt einnig áfram með heilunarnámið og tók reiki 2 og ári seinna reikimeistarann.
Ég hafði mikinn áhuga á að læra meira í dáleiðslu og skellti mér því í framhaldsnám hjá Roy Hunter í þáttaadáleiðslu og minningum ( Parts Therapy and Regression Therapy) þar sem nokkrir þættir hugans eru beðnir um að stíga fram og segja hvaða hlutverki þeir gegna og hvernig þeim líði. Einnig er farið í minningar sem tengjast hverjum þessara þátta fyrir sig.
Tæpu ári seinna sérmenntaði ég mig hjá Dr. Edwin k. Yager í að tala við innri vitund eða stjórnstöðina sjálfa (Subliminal Therapy) en Dr. Edwin K. Yager er heimsþekktur fyrir brautryðjandastarf í fyrrnefndri dáleiðslutækni og hefur skrifað margar bækur um dáleiðslu.
Subliminal Therapy gengur út á að færa þætti hugans sem tóku stjórn þegar við vorum yngri inn í nútímann og fá þá til að breyta starfsemi sinni eða víkja. Sterkir þættir hugans halda endalaust áfram að stjórna nema okkur takist að sannfæra þá um að við þurfum ekki á þeima að halda lengur og fáum þá til að víkja.
Hugurinn stjórnar ósjálfráðu vöðvunum og við áföll geta þessir vöðvar farið að starfa vittlaust og þannig orsakað mígreni, vefjagigt, astma, psoriasis og fl. Innri vitund getur komið þessu aftur í lag.
Í desember 2013 lauk ég NLP Practitioner Coach námi (Neuro Lingustic Programing) sem þýðir samspil milli tauga, málfars og skilnings en NLP gengur út á að gera hið ómögulega mögulegt og hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft. Rétta hin fullkomnu verkfæri fyrir hvern og einn eða búa til hina fullkomnu uppskrift að velgengni í starfi, námi, betri heilsu, ástarmálum og ýmsu öðru. Frægasti NLP dáleiðari Bandaríkjanna var Milton Erickson og var námið mitt meðal annars byggt upp á hans fræðum.
Vorið 2014 útskrifaðist ég sem Höfuðbeina og spjaldhryggjarmeðferðaraðili eftir þriggja ára nám frá Upledger Institut og haustið á eftir lauk ég sérmenntun í að veita börnum meðferð (0-12 ára).
Meðferðin er með eða án samtals fyrir fullorðna og eldri börn og hefur slíkt reynst mjög árangursríkt þegar kemur að orkumeinum eða stoðkerfisvanda að tjá sig á meðan unnið er með líkaman. Það er þó alltaf val hvort talað er eða ekki.
Haustið 2015 sótti ég nám í dáleiðslu hjá Larry Elman sem er sonur Dave Elman eins frægasta dáleiðara Bandaríkjanna. Hann þróaði meðferðardáleiðslu og kenndi síðan læknum og tannlæknum dáleiðslu í áratugi. Í október 2017 sótti ég námskeið hjá ítalanum Giancario Russo sem kennir dáleiðslu án orða.