Rúmlega fimmtugur maður segir frá.
Ég hef barist við svefnvanda í 6 ár og er búinn að vera á svefnlyfjum síðustu tvö árin.
Þetta byrjaði þannig að ég átti erfitt með að ná mér niður á kvöldin og var svo að vakna reglulega á nóttunni og eiga erfitt með að sofna strax aftur. Það mátti aldrei heyrast hljóð fyrir utan gluggann eða frá öðrum íbúum í húsinu þá var ég vaknaður en allir hinir sváfu. Áður en þetta vandamál byrjaði var ég vanur að geta dottað yfir bók í stól og sofnaði áður en ég vissi af. Ég gat sofnað þegar ég var þreyttur og svaf þar til klukkan hringdi eða ég var útsofinn. Þegar þessi streita byrjaði með svefnleysinu þá fór ég að hugsa verr um sjálfan mig en ég hafði gert áður. Ég fór að drekka meira kaffi. Ég sótti meira í skyndimat en áður og hugsað ekki um að breyta um lífsstíl. Hólmfríður spurði mig hvort ég hefði reynt líkamsrækt, hugleiðslur og breytt mataræði, minnkað reykingar og kaffidrykkju ?. Ég kom í tvö skipti til Hólmfríðar og fór í slökunardáleiðslu í fyrra skiptið þar sem ég fann mér fallegan öruggan stað. Hún kallaði fram einn hluta af mér sem hefur verið að stjórna svefninum og bað þann hluta um að færa sig úr fyrsta sæti niður í þriðja sæti. Hún kenndi mér sjálfsdáleiðslu þar sem ég nota öll umhverfishljóð til að færa mig dýpra og dýpra.
Í seinna skiptið var ég ákveðinn í að breyta um lífsstíl svo ég ákvað að hætta að reykja. Hólmfríður lét mig kveðja reykingahlutann og kallaði fram nýjan hluta af mér.
Ég sef orðið betur og virðist vera búinn að finna einhverja innri ró og er að minnka svefnlyfin hægt og rólega. Nýji hlutinn af mér fær aukið rými til að fara í hugleiðslu og líkamsrækt og ég hef mun meiri orku í vinnuna, fjölskylduna og sjálfan mig.