33 ára gömul kona segir frá.
Ég fór til Hólmfríðar því vinkona mín var búin að fara nokkrum sinnum og alltaf jafn ánægð. Ég var því orðin forvitin. Ég er of þung og man alltaf eftir mér þannig. Pínu erfið í skapinu líka og verð auðveldlega reið og pirruð. Ég hef ekki góða einbeitingu og veð úr einu í annað en er samt með góða vinnu þar sem ég er yfirmaður og gengur vel í starfi. Ég hef ekkert sérstaklega mikið sjálfstraust og gengur illa í karlamálum. Ég þurfti að finna sjálfa mig, breyta mataræðinu og vinna með sjálfstraustið. Ég fór á fallegan ímyndaðan stað í dáleiðslunni. Fannst það betra en að hafa hann raunverulegan.
Við fórum í gegnum mataræðið og gamlar minningar og það kom mér á óvart að kaupæði mitt mátti rekja til barnæsku og unglingsáranna þar sem við áttum aldrei pening og ekkert var keypt nema nauðsynjar. Ég er því að launa mér þetta í dag með því að æða í hillur á búðum og hrúga stærstu súkkulaðibirgðunum í körfuna mina. Launin mín í dag eru í raun og veru refsing við sjálfa mig.
Með hjálp dáleiðslu er ég líka búin að átta mig á því að barnæska mín var ekki eins erfið og ég hafði haldið. Við vorum alltaf með hollan mat en engan munað. Ég elda nánast aldrei, er alltaf með eitthvað sem ég get gripið og borða mikið af pizzum og oftast fyrir framan sjónvarpið. Ég hef verið að lifa lífinu sem ég hélt að væri svo gott en þessi lífsstíll dregur úr sjálfstraustinu. Ég kvaddi gömlu mig og gamla tímann í sátt og sá að hann var ekki svo slæmur og með því hugarfari held ég áfram full af sjálfstrausti, byrjuð að elda fyrir mig eina.