Dáleiðsla á íslandi er frekar nýtt meðferðarform.
Enn fleiri fá áhuga á að prófa hana og sjá að hún er líklega lang besta meðferðin við streitu og kvíða ásamt hugrænni atferlismeðferð.
Sumir koma í dáleiðslu til að losna við þunglyndi en þunglyndi er þó oftast afleiðing þess fyrr nefnda þó það sé alls ekki í öllum tilvikum.
Ef eitthvað er tekið frá þér mjög skyndilega eins og heilsa eða einhver sem þér þótti mjög vænt um er hægt að falla mjög hratt í þunglyndi. Það er þó eitthvað sem hægt er að vinna með og losna við. Ef þunglyndi hefur þróast hægt og rólega á nokkrum árum er það í nánast öllum tilvikum afleiðing streitu og kvíða. Sumir tala um að þunglyndið liggi í genum en oftast eru það þó aðrir þættir sem liggja þar og koma síðar þunglyndinu af stað. Feimni, lítið sjálfstraust og fl. Hegðunarmunstur í umhverfi uppeldis sem getur smátt og smátt dregið drifkraftinn og trúna á ágæti sjálf síns burt við það að vera öðruvísi. Svolítið eins og að vera áhorfandi í leikriti lífsins en ekki á sjálfu sviðinu. Að sættast við að vera öðruvísi er skref í átt að bata.
Jákvæðni er lyf að betra lífi.
Jákvæðir foreldrar og kennarar sem leyfa börnum að vera þau sjálf án þess að vera í sífellu að setja þau í einn ramma eru fólk framtíðar. Fullt af fólki lifir eftir gömlu reglunni hvernig hlutirnir eigi að vera og er óhagganlegt. Þetta fólk er sífellt að valda sjálfu sér skaða með streitu og vonbrigðum.
Það sem dáleiðsla getur gert til að hjálpa er að skoða skýrt afhverju viðkomandi er á þessum krefjandi stað og afhverju hann eða hún geta ekki sleppt tökum. Oftast eru þetta gamlar og löngu úreltar alhæfingar hvernig hlutirnir eigi að vera sem hafa skapað fullkomnunaráráttu og vissulega fullkomin leið að streitu og kvíða.
Við höfum séð margar stórkostlegar breytingar frá því ég sjálf var í grunnskóla og þá var ofbeldi bókstaflega leyft að viðgangast af hálfu kennara sem gat verið hatari og algjört yfirvald. En sem betur fer voru líka fullt af frábærum kennurum hér áður fyrr líka.
Afhverju er sannleikurinn sárastur?
Að fá fólk og fjölskyldur í dáleiðslumeðferð sem er ómeðvitað með öllu um sjálft sig og sína hegðun er alls ekki svo óalgengt. Td. heyrði ég á fyrirlestri um andlegt ofbeldi að þeir sem beita því hafi ekki hugmynd um það í um 80% tilfella. Að beita stjórnsemi með þögn, raddblæ eða líkamsstöðu getur verið mesta ofbeldið sem viðgengst. Þögnin sjálf er þó alltaf stærsta valdið og mesta ofbeldið af þeim sem beitir andlegu ofbeldi hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað því þögn skapar óvissu og óvissan er versti óvinurinn.
Dáleiðslan hefur einmitt vakið fólk til vitundar með þessa hegðun og þá jafnt þá sem eru beittir ofbeldi og þá sem beita því og þá er sannleikurinn oft sár þegar fólk áttar sig á áralöngu ofbeldi.
Hættu bara að vera svona þungur!
Margir kannast líklega við svipaðar setningar en hvernig er hægt að breytast?
Ef vilji er til að breytast þá er það hægt. Það skiptir engu máli hvað hefur gerst í fortíðinni, það er alltaf hægt að taka nýja stefnu í átta að betra lífi.
Dáleiðslan sýnir skýrt stöðuna hvernig hún er og sýnir leið í átt að betra lífi. Hún sýnir líka hversu gott lífið er í raun og veru og hjálpar til við að horfa á það góða og sleppa taki á hinu erfiða. Hún er frábær leið til að sleppa taki og fyrirgefa.
Ábyrgð gefur streitu merki um að hefja árás.
Í morgun varð ég fyrir óskemmtilegri reynslu þegar ég var að skutla syni mínum í vinnuna. Ég þurfti að hægja á mér og stoppa í ca. 5 sekúndur og hleypa stráknum út og þar sem stöðvunarskylda er á þessum stað hefur mér fundist í lagi að stoppa á einum andardrætti.
Ég sá í baksýnisspeglinum að mögulegur árásamaður var við stýrið fyrir aftan mig. Við gætum kallað hann stress. Stress var byrjaður að reiðast af því ég hægði á mér og áður en ég stoppaði bílinn var hann byrjaður að flauta.
Hann var í vinnugalla og líklega á leið í vinnuna. Klukkan var orðin 8.27 svo kannski hefur stress átt að vera mættur kl 8.30, en af því ég þurfti 5 sekúndur til að hleypa stráknum út var ég orðin sökudólgur. Það var mér að kenna að hann yrði seinn.
Ég sá að ekki var í boði að hleypa stráknum út við þessar aðstæður og engin önnur leið fær til að hleypa honum út þar sem engin stæði eru í boði á þessum stað svo ég ákvað að keyra upp á gangstétt til að stress kæmist fram úr mér án þess að þurfa að draga andann djúpt.
Það sem var mest ógnandi við þennan unga mann var að hann stoppaði við hlið mér í nokkrar sekúndur og sendi mér ljótt, hatursfullt augnráð. Þessi maður var á að giska 18-20 ára gamall.
Ég hugsaði með mér að ef stress ætlaði sér að byrja æviferilinn sinn á þennan hátt myndi hann líklega brenna út fyrir 35 ára afmælisdaginn sinn.
Kannski höfum við öll lent í því að vera að flýta okkur og flautað á einhvern sem var fyrir okkur, en hvað með hatur og ógnandi augnráð? Augnráð sem gerir unga manninn að ofbeldismanni.
Kannski lærði hann að vera ógnandi eins og foreldrar hans. kannski er þetta lærð hegðun. Kannski er hann samt bara góði strákurinn inn við beinið sem ber mjög mikla ábyrgð. Ábyrgðin fyllir mælinn og stress fer af stað. Stress hefur fengið merki frá ábyrgð að nú megi það hefja árás.
Það er auðvitað mikil ábyrgð að vera ungur maður byrjaður að vinna og það er best að vera fullkominn. Það er betra að rústa deginum og byrja hann á vondan hátt frekar en að mæta of seint. Það er best að vera fullkominn. Ég gæti ímyndað mér að ungi maðurinn hugsaði á þennan hátt.
Hvernig verður orkan þá yfir daginn? Verður hann enn orkumikill um kl 2 eða kl 5? Ef hann ætti börn, gæti hann sótt þau úr leikskólanum kl 5? Gæti hann leikið við þau í klukkutíma eftir vinnu og skroppið svo út í búð að kaupa í matinn kl 6? Gæti hann eldað kl 7? Hvernig yrði hann mögulega kl 10? Gæti hann yfir höfuð sofnað?
Nú geri ég mér fulla grein fyrir að stress er kannski bara stressaður af og til og flesta daga er hann í góðum gír. Hann gæti jafnvel hafa séð eftir að hafa brugðist við á þennan hátt eða hann gæti enn verið að hugsa illa til mín.
Jú, ég eyðilagði daginn fyrir honum því ég var ekki fullkomin eins og hann. Ég gerði mistök því ég stoppaði bílinn á einum andardrætti.
Hversu fullkomin viltu vera?
Á þeim árum sem ég hef verið að dáleiða hef ég komist að því að margir eru haldnir fullkomnunaráráttu.
Það getur verið erfitt og orkufrekt að eltast við fullkomnun og flest vitum við að enginn er fullkominn og það er í besta lagi að gera mistök.
Það eru þó margir sem þurfa að vera fullkomnir og þeir eru snillingar í að leita fólk uppi sem er ófullkomið.
Fullkomnunarárátta birtist í ýmsum myndum. Sumir mæta henni af og til og aðrir lifa með henni.
Það er erfitt að vera fullkominn og því fylgir streita. Sá sem setur gífurlega orku í allt sem hann gerir byggir upp kvíða því hann þarf að sjálfsögðu að gera betur næst. Hann stefnir alltaf á meira og þegar toppnum er náð er aðeins ein leið fær og hún er niðrá við.
Sá fullkomni er sérlega duglegur að gefa öðrum ráð því hann veit oftast betur. Hann forðast þó langar samræður og á erfitt með að rökræða og verður auðveldlega reiður.
Sá fullkomni er sjaldan í núinu og á erfitt með að njóta. Hann liggur á sólarströnd að plana næstu utanlandsferð þar sem hann ætlar að vera á betra hóteli, nær ströndinni.
Hann á erfitt með að hlægja og gleðjast með hinum því hann gleymdi að greiða fyrir drykkinn á hótelinu áður en hann fór út og hann vill að sjálfsögðu ekki vera ófullkominn.
Sá fullkomni á erfitt með samskipti sem skipta verulegu máli því hann vill ekki gera mistök og velur því oftast að hafna sjálfum sér frekar en einhver annar geri það. Hann hefur svo auðvitað áhyggjur af því að hitta manneskjuna út í búð.
Sá fullkomni þarf ekkert að kynnast nýju fólki vel því hann veit ekki hvar hann hefur það og svo eru flestir ekki nógu góðir en hann á samt akkúrat þannig vini og hann talar um þá.
Hann talar sjaldan um sína eigin fortíð eins og hún var og velur frekar að tala um aðra. Hann segir þó aldrei frá hversu latur makinn sé því líf hans er fullkomið eins og það er.
Einn daginn er sá fullkomni kominn yfir fertugt, langþreyttur og orkulaus og einmitt þannig sér hann að þegar botninum er náð er aðeins ein leið fær og hún er upp á við.
Hann ákveður því að breyta lífi sínu til betri vegar.
Að elska sjálfan sig er ekki sjálfselska og eigingirni heldur velgengni. Að elska og virða sjálfan sig gerir okkur stærri, býr til möguleika og opnar á ótal tækifæri til að lifa lífinu lifandi.
Við getum þakkað fyrir litlu hlutina og byrjað að laða að okkur velgengni.