Dáleiðsla – lífsstíll, breytt mataræði
55 ára kona segir frá.
Ég er nýlega fráskilin og hef bætt verulega á mig síðustu 2 árin og notað mat sem huggun.
Í dag líður mér nokkuð vel andlega en er of þung. Það er auðvelt að fitna hratt en hvernig er best að grennast? Hér kom dáleiðslan til sögunnar. Vinkona dóttur minnar hafði farið í dáleiðslu og losnað við óþarfa ótta með frábærum árangri svo ég ákvað að það væri næsta skref fyrir mig að fara í dáleiðslu.
Auðvitað hefur það dregið úr sjálfstraustinu að fitna hratt þar sem ég hef oftast verið í flottu formi.
Ég fékk gott uppeldi og tel mig ekki hafa verið að stríða við neina sérstaka erfiðleika í lífinu þó ég hafi farið í gegnum ýmislegt.
Nú er ég á nýjum stað í lífinu og tilbúin að hugsa betur um mig en nokkru sinnum fyrr, breyta mataræðinu og fara í hollan lífsstíl og byrja að hreyfa mig reglulega.
Í dáleiðslunni var unnið með sjálfstraustið og markmið varðandi mataræði og hreyfingu og eins hvað ég ætlaði að gera fyrir mig. Ég var orðin félagslega einangruð án þess að fatta það þar sem mér fanst bara gott að vera ein en það er ekki gott að einangra sig félagslega og missa niður tengsl við vini og fjölskyldu.
Við hjónin áttum sameiginlega vini og margt breyttist eftir skilnaðinn.
Ég þurfti að skoða fortíðina og sættast við hana, sjá betur afhverju ég var komin á þann stað sem ég er á í dag og það hjálpaði mér mikið. Ég er ekkert sérlega góð í að skrifa svona sögur þar sem ég hef ekki verið snillingur í að tjá mig í gegnum tíðina eins og margir. Hef oft haldið tilfinningum inni og fundist það bara í lagi. Leið best ef þær voru bara ekkert að trufla mig.
Eftir skilnaðinn hef ég hinsvegar ekki ráðið eins vel við þetta og virka ekki eins sterk og áður. Það er eins og eitthvað hafi brotnað í mér og ég hafi fyllt upp í með mat og sætindum. Leyft mér allt of mikið og fundist það í lagi þar til ég steig loksins á vigt og sá tölu sem ég hef aldrei séð fyrr.
Í dáleiðslunni fórum við einnig í tilfinningar, hvernig þær hafa þróast í gegnum árin og mér varð ljóst að ég hafði verið duglegur nagli sem væri að brotna.
Hólmfríður sagði að þetta væri tækifæri fyrir mig að skoða mig betur, tilfinningar og fleira og það gerðum við. Ég sótti í gamlan styrk sem ég átti mikið af enda var þetta aldrei neitt mál þegar ég var yngri að vera í formi og þennan gamla styrk er ég að nýta mér í dag á jákvæðan hátt.
Ég trúi því að mér takist að komast í form og er á leiðinni að komast í kjörþyngd með breyttu mataræði, daglegri hreyfingu og ég ætla mér líka að rækta sambönd við vini og vera jákvæð.
Ég er á leiðinni að komast á þann stað sem ég vil vera á.
Vigtin segir ekki allt en þegar ég verð sátt er ég komin á réttan stað.