Félagsfælni

Dáleiðsla – félagsfælni

23 ára stelpa segir frá.

Það var erfitt fyrir mig að byrja í skóla þegar ég var lítil og mér fanst best að vera heima hjá mér. Ég átti góða vinkonu í hverfinu og í bekknum mínum svo ég var aldrei vinalaus en ég passaði aldrei inn í hópa og var strax óörugg ef vinkona mín var með aðra vinkonu heima þegar ég fór til hennar. Mér fanst ég vera asnaleg og segja asnalega hluti. Mér hefur fundist ég  öðruvísi og fór ekki mikið í partý eða veislur því þá roðnaði ég og fékk rauða flekki á líkamann og handskjálfta. Þegar fólk sem ég þekkti ekki neitt byrjaði að spyrja mig að einhverju virtist ég frjósa þótt ég vissi svarið. Ég var með þráhyggju og áráttur og þá helst fullkomnunaráráttu sem stoppaði mig oft í að gera hluti. Ég var ekkert að gleðjast yfir því sem ég gerði vel því mér fanst ég alltaf geta gert betur og svo hafði ég endalaust samviskubit yfir öllu saman. Það var  heldur ekkert gaman að hrósa mér því ég trúði engu góðu um mig.

Það var gaman að koma til Hólmfríðar og mér fanst dáleiðsluferlið skemmtilegt og líka svolítið krefjandi. Ég mundi ekki alltaf spurningarnar og var stressuð í byrjun en Hólmfríður spurði mig bara aftur og aftur þar til ég skildi. Það fór að hægjast á mér þegar tók að líða á tímann og held ég að þá hafi ég náð góðri slökun og byrjað að detta niður í dáleiðsluástand á milli svefns og vöku. Það var svo skrítið að rifja upp þessar minningar og sjá hvernig ég hafði alltaf verið. Svona aðeins fyrir utan eins og ég gengi meðfram girðingu og héldi mér í hana. Ég þorði aldrei að sleppa taki á neinu og var alltaf óörugg. Fanst ég líka bera ábyrgð á fjölskyldunni minni þrátt fyrir að vera lítil stelpa. Ég sá betur í dáleiðslunni að þó ég hafi verið feimin var ég mjög orkumikil og oft á iði og mjög upptekin. Ég var ekki alin upp í kærleika og látin vinna mikið sem krakki. Ég fékk sjaldan hrós. Mamma var töffari og duglegri við að setja út á mig. Ég var ekki eins og hún og líklega hefur hún ekki þolað það.  Hún var kannski alltaf ómeðvitað að brjóta sjálfstraustið mitt með því að benda mér á að ég væri ekki nógu góð. Ég náði verulegri slökun í þessari dáleiðslu þar sem við unnum með sjálfstraustið og skoðuðum óöryggið í mér og hvernig það hafði fylgt mér alla tíð.

Ég upplifi gríðalegan létti í dag og er duglegri við að vera bara ég eins og ég er og er sama hvað aðrir hugsa um mig. Ég er orðin mun sterkari fyrir áreiti annarra og hugsa meira um hvað mér sé fyrir bestu.  Mér hefur gengið betur í skólanum bæði í námi og félagslega. Ég er með skýrari hugsun og ánægðari. Félagsfælnin dró úr mér allan kjark áður, bæði í samskiptum og námslega séð. Það eru ekki nema nokkrar vikur síðan ég fór í minn fyrsta dáleiðslutíma og miðað við árangur ætla ég sko sannarlega að mæta aftur áður en prófin byrja og sækja mér enn meiri styrk.