Dáleiðsla – meðvirkni
Rúmlega þrítug kona segir frá.
Kvíðinn mætir í öllu myndum.
Hann er hjá þeim sem hefur lengi verið vinsæll, náð langt, jafnvel frægur í mikillri velgengni og hann er hjá þeim sem hefur alla tíð verið að glíma við félagsfælni.
Hann er hjá manneskju sem hefur viljað skilja í mörg ár vegna andlegs ofbeldis og hann er hjá konunni sem á kærleiksríkan eiginmann, alltaf góður og skilningsríkur.
Það sem þessir aðilar virðast eiga sameiginlegt er meðvirkni.
Íslendingar skora hátt þegar kemur að meðvirkni. Landið er lítið, fólk er oft skilt eða tengt og þá sérstaklega úti á landi og margir eru snillingar í að sýna að allt sé gott þrátt fyrir að svo sé ekki til að losna við kjaftasögurnar.
Uppeldið mótar okkur og sem börn og unglingar fylgjum við því sem við teljum að sé hið eina rétta og sanna en sem fullorðnir einstaklingar förum við að horfa í aðrar áttir. Við tengjumst nýjum fjölskyldum, skoðum ný mynstur og vinnum okkur frá gamla mynstrinu á einn eða annan hátt.
Ég trúi því að foreldrar geri sitt besta og fáir ætli sér að brjóta niður sjálfsmynd barna sinna og verða svo miklir stjórnendur að börnin hverfi inn í sig.
Við erum öll að gera okkar besta hverju sinni. Sjálf hef ég staðið mig að því að ala börnin mín upp nákvæmlega á sama hátt og ég var alin upp og þá helst þegar ég er í ójafnvægi eftir langa vinnutörn. Starf mitt er krefjandi en einnig fjölbreytt og skemmtilegt.
Í dáleiðslu þessari sá ég að ég sem barn bar alltaf ábyrgð á öðrum og þá sérstaklega móður minni sem var ofurviðkvæm og taldi sig geta bjargað heiminum. Systkyni mín voru ofvirk (þá án greiningar) og aðstæður oft krefjandi á heimilinu. Þrátt fyrir viðkvæmni móður gat hún verið hinn mesti stjórnandi sem hún kannski þurfti að einhverju leiti á að halda og svolítið eins og hún hafi ekki vitað hvernig hún ætti að fara að því að ala okkur upp.
Pabbi var hlutlaus og dró sig mest til hlés til að fá frið. Ég var ólík systkynum mínum og sat uppi með ábyrgðina og tók allt inn á mig. Ég var feimin, tjáði mig sjaldan nema í gegnum leiki og var hikandi en lífsglaður krakki og átti góða vini.
Þegar ég mæti í dáleiðslu til Hólmfríðar hafði ég lesið heilmikið um hana. Ég hafði einnig heyrt margt gott um hana og því ákvað ég að mæta sjálf nú þegar ég var búin að senda fullt af fólki til hennar í dáleiðslu.
Ég er mætt á Suðurlandsbraut 32, 4. hæð. Við mér blasir biðstofa í ljósum lit og þar beint af augum er herbergi Hólmfríðar sem er svolítið eins og að koma inn á heimili.
Herbergið er stórt með töluverðu útsýni til fjalla og yfir grasagarðinn í Laugardal.
Eftir að hafa horft út í dágóða stund tengi ég mig aftur við herbergið og horfi á abstrakt málverk í fallegum litum, orkusteina og kertaljós.
Hólmfríður býður mér að velja mér sæti og það er úr mörgu að velja. Nýtískulegur fjólublár sófi og stólar í stíl.
Hér er enginn meðferðarbragur á ferðinni nema kannski í bekknum og eftir hálftíma viðtal bauðst mér að leggjast á hann og þar lá ég í dáleiðslunni í tæpan klukkutíma.
Í dáleiðslunni ferðaðist ég mikið í barnæsku og skoðaði uppeldi mitt, fjölskyldu og vini. Ég sá að ég var þessi littla káta stelpa sem var alltaf að passa upp á að allir væru vinir. Ég var með ofurheyrn og heyrði allt mögulegt sem ég átti ekki að heyra og faldi mig oft í skápum til að hlusta á það sem var sagt. Stórmerkilegt að þessu var ég alveg búin að gleyma. Ég var sem sagt að eltast við ábyrgð og verða fullorðin allt of fljótt. Þegar Hólmfríður benti mér svo á að skoða hvernig ég væri öðruvísi í dag þá varð mér hálf brugðið því í raun hafði ekkert breyst. Ég var enn að eltast við ábyrgð og hjálpa, stjórna og skipta mér af öðrum óumbeðið og var sjálf alltaf útundan.
Þessu mátti ég gjarnan breyta í dag.
Að rétta fram hjálparhönd og vera til staðar fyrir aðra er ekkert nema flott, en að hlusta ekki á eigið hjarta og hugsa frekar hvað öðrum finnist er ekki flott.
Að vera búinn að hugsa svör við mögulegum spurningum hvernig fólk muni bregðast við og vera sífellt að eltast við hrós er ekki flott.
Ég vissi vel af meðvirkni minni þegar ég fór í dáleiðsluna en hún hjálpaði mér að sjá nákvæmlega afhverju hún væri þarna og afhverju kvíðinn hafði fylgt mér frá barnsaldri.
Börn eiga ekki að bera ábyrgð eins og ég gerði og þau eiga ekki að þurfa að eltast við hrós því eltingaleikurinn skapar kvíða og þegar kvíðinn lætur sjá sig vill hann helst bara vera.
En var hann eitthvað að hjálpa mér í dag, kvíðinn??
Það er enginn sem dæmir mig og vel hægt að kynnast mér upp á nýtt.
Ég er á leiðinni að breytast og þegar ég hef breyst munu sumir breytast með mér, nokkrir munu minnka samskipti við mig og aðrir fara.