Söngkennsla

Söngurinn eflir innri gleði 🙂 
 
Sumarnámskeið í söng og raddkennslu. Við byrjum á bilinu 12.- 26. maí. Leyfðu þér að hlakka til 🙂  

Um er að ræða fjögurra vikna námskeið þar sem mætt er 1x í viku í 40 min í senn á mánudögum eða fimmtudögum. Námskeiðið er tekið á  fjórum vikum eða eftir samkomulagi. Því lýkur þó ekki seinna en fimmtudaginn 12. júní. Verð er 50.000 kr. Um er að ræða einkakennslu í söng og raddæfingum þar sem við vinnum með öndun og túlkun, líkamsstöðu, framkomu, tækniæfingar og sönglög. 

Fyrir þá sem vilja þá förum við nokkur saman í dagsferð í KJós í raddgöngu, gönguhugleiðslu og fleira skemmtilegt til að efla lífsorkuna. Þáttakendur fara á sínum eigin bíl eða deila bíl. Ferðin er innifalin í námskeiðinu fyrir utan 2.000 kr í matar og kaffisjóð. Boðið verður upp á léttan og hollan hádegisverð. Tímasetning kemur síðar en stefnan er tekin á lok júní.

Nú er opið fyrir skráningu á sumarnámskeiðið og ef þig langar að koma í stuttan prufutíma til að vera viss vertu þá endilega í sambandi sem fyrst.

Stakur söngtími í 50 min er á 15.000 kr. 

Fyrir þá sem vilja sækja lífsorkunámskeið þá hefst nýtt námskeið seinni partinn í maí.

Lífsorkunámskeiðið er fyrir þá sem vilja efla sína innri rödd, styrk fyrir atvinnumál eða hið daglega líf. Losna við gamlar alhæfingar, vinna með markmið og rödd. Námskeiðið er eingöngu fyrir þig þar sem þú mætir í fjögur skipti í 40 min í senn. Námskeiðið er tekið á tveimur til fjórum vikum eða eftir nánara samkomulagi. Verð fyrir lífsorkunámskeið er 60.000 kr. 

Ég hef töluverða reynslu af söngkennslu og sjálfstyrkingarnámskeiðum með eða án NLP dáleiðslu. Eins hef ég góða reynslu af því að hjálpa fólki að finna röddina sína og vinna með stam og ýmis raddvandamál þegar kemur að talröddinni og legg þá mikla áherslu á líkamsbeytingu og öndun. 

Þú getur heyrt í mér í síma 698 7807 eða sent mér póst á listamannaspjall@gmail.com og við finnum tíma fyrir þig. 

Kennsla fer fram í góðu 22. fm rými í Litla Skerjafirði, 102 Reykjavík.

Aðeins um tónlistarferilinn 🙂

Hólmfríður Jóhannesdóttir byrjaði ung í Söngskólanum í Reykjavík og var tónlistin líf hennar og yndi. Á sama tíma nam hún í Menntaskólanum í Hamrahlíð en fljótlega kom þó í ljós að tónlistin var mikilvægari. Árin í MH voru skemmtileg og félagsskapurinn góður en þau urðu þó ekki mörg og eftir 8. stigs próf frá Söngskólanum í Reykjavík og útskriftartónleika í Íslensku óperunni hélt Hólmfríður til Vínar. Árin í Söngskólanum voru einfaldlega yndisleg og þegar horft er tilbaka voru þau líklega bestu árin í tónlistarnámi. Til stóð að Hólmfríður færi með góðri söngvinkonu til Vínar og ætluðu þær að leigja íbúð saman en sú hætti við á síðustu stundu og fór Hólmfríður því ein út 24 ára. Árin í Vín urðu samtals 8 á tveimur tímabilum. Á fyrra tímabilinu lauk Hólmfríður einsöngvaraprófi frá Konservatorium í Vín og 5. stigi í píanóleik. Eftir einhver ár í Vín hélt Hólmfríður til Ítalíu í söngnám og ítölskunám. Fyrst í Mílanó og seinna í Sienna. Ítalía var kærkomin breyting. Árið 2002 lauk Hólmfríður kennaranámi frá Konunglega tónlistarháskólanum í Bretlandi og var um tíma söngkennari í Söngskólanum í Reykjavík. Enn og aftur var haldið til Vínar og nú með ungum syni og var Hólmfríður þá starfandi í Austurríki og í Þýskalandi sem óperusöngkona á tæplega tveggja ára tímabili. Þetta byrjaði þó allt með tónleikum þar sem hún fékk starf hjá tónleikafyrirtæki sem skipulagði tónleika víðsvegar um Vín og söng Hólmfríður 2-3 tónleika á viku í einhverja mánuði áður en farið var að ferðast með óperunni. Til gamans má geta að Hólmfríður söng slétt 100 sýningar sem Hans úr óperunni Hans og Gréta eftir Humperdinck. Ferðalögin voru krefjandi og skemmtileg og félagsskapurinn oftast frábær og að fá tækifæri til að sýngja svona reglulega var ekki sjálfsagt.  Aftur heim. Hólmfríður stofnaði sitt eigið fyrirtæki þar sem hún starfar enn í dag. Í byrjun var söngkennslan aðal málið en svo fór Hólmfríður að læra dáleiðslu hjá þekktustu dáleiðurum Bandaríkjanna og þá tók dáleiðslan yfir. Hólmfríður stofnaði Andlega Setrið og hefur starfað þar frá 2012 til dagsing í dag með góðum árangri í að hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft. Á þessum árum hefur Hólmfríður haldið sjálfstyrkingarnámskeið, söngnámskeið og fjölda einsöngstónleika og gefið út tvær hljómplötur. Nú síðast 2022, hljómdiskinn Hjarta þitt ásamt Kjartani Valdemarssyni píanóleikara og hljómsveit. Nú í apríl hélt Hólmfríður einsöngstónleika ásamt Ástríði Öldu Sigurðardóttur píanóleikara þar sem flutt voru þekkt ljóð eftir Schubert og Brahms.